Fór til Suður-Kóreu til að sinna herskyldu

Son Heung-Min hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur …
Son Heung-Min hefur skorað níu mörk og lagt upp önnur sjö í 21 leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. AFP

Son Heung-Min, sóknarmaður enska knattspyrnuliðsins Tottenham, hefur snúið aftur til heimalands síns Suður-Kóreu. Það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Son er kominn til Suður-Kóreu til þess að klára herskyldu sína en samkvæmt fréttum frá Englandi á hann fjórar vikur eftir af herskyldu sinni þar í landi.

Enska úrvalsdeildin er í ótímabundnu hléi á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir en í upphafi var ráðgert að hefja leik í deildinni á nýjan leik hinn 4. apríl. Því hefur nú verið frestað og má fastlega gera ráð fyrir því að deildin hefjist ekki á nýjan leik fyrr en í fyrsta lagi í maí, jafnvel júní, eins og margir fjölmiðlar á Englandi hafa spáð.

Son er 27 ára gamall en hann er nú í sóttkví í heimalandi sínu. Herskylda í Suður-Kóreu er, samkvæmt lögum þar í landi, 21 mánuður en Son fékk undanþágu þegar Suður-Kórea fór með sigur af hólmi á Asíuleikunum árið 2018. Hann þarf hins vegar að sinna heræfingum í fjórar vikur til þess að uppfylla herskyldu sína og vonast hann til þess að klára þær æfingar áður en tímabilið hefst á nýjan leik á Englandi.

mbl.is