Heilbrigðisráðherrann skorar á fótboltamenn

Matt Hancock á fréttamannafundi í dag.
Matt Hancock á fréttamannafundi í dag. AFP

Matt Hancock, heilbrigðismálaráðherra Bretlands, skoraði í dag á leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu að leggja sitt fram til hjálpa þjóðinni í gegnum erfiðleikana sem hún gengur nú í gegnum vegna kórónuveirunnar.

„Allir þurfa að leggja sitt af mörkum, líka leikmennirnir í úrvalsdeildinni í fótbolta. Miðað við gríðarlegar fórnir sem margir félagar mínir í heilbrigðisþjónustunni hafa fært, þeir hafa margir hverjir mætt ótrauðir í vinnuna, fengið sjúkdóminn og látið lífið, þá ættu fótboltamennirnir í úrvalsdeildinni að leggja sitt af mörkum — taka á sig launalækkun og gera sitt,“ sagði Hancock í ávarpi til bresku þjóðarinnar.

Bretlandseyjar hafa farið afar illa út úr kórónuveirunni en ríflega 2.500 manns hafa látið lífið af völdum hennar. Hancock beindi orðum sínum til leikmanna úrvalsdeildarinnar þar sem engin niðurstaða er komin út úr fundahöldum samtaka atvinnuknattspyrnumanna um mögulega launalækkun þeirra.

mbl.is