Allt sett á ís í Liverpool

Timo Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan …
Timo Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan vetur. AFP

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool hafa sett allt á ís varðandi hugsanleg leikmannakaup félagsins þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu.

Kórónuveirufaraldurinn herjar nú á heimsbyggðina og því liggur allt íþróttalíf niðri í Evrópu, nema í Hvíta-Rússlandi, þar sem er spilaður fótbolti.

Félög á Englandi eru því svo gott sem tekjulaus þessa dagana þar sem öllum leikjum hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Þýski landsliðsframherjinn Timo Werner hefur verið sterklega orðaður við Liverpool í allan vetur en nú gæti kórónuveiran gert það að verkum að ekkert verði úr félagaskiptum leikmannsins til Liverpool.

Enskir fjölmiðlar höfðu leitt að því líkur að Klopp myndi styrkja hópinn hjá sér umtalsvert í sumar en þeir Adam Lallana og Nathaniel Clyne eru báðir á förum þegar samningar þeirra renna út í sumar. Þá eru þeir Xherdian Shaqiri og Dejan Lovren báðir til sölu og því ljóst að þýski stjórinn mun þurfa að fylla skörð þessara leikmanna þegar þeir fara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert