Enska úrvalsdeildin seinna af stað en áætlað var

Óvíst er hvenær Gylfi Þór Sigurðsson og félagar halda áfram …
Óvíst er hvenær Gylfi Þór Sigurðsson og félagar halda áfram keppni á Englandi. AFP

Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu sendi frá sér yfirlýsingu fyrir stundu þar sem fram kemur nú sé ljóst að keppni í deildinni muni ekki fara af stað á ný í byrjun maí eins og stefnt hafði verið að.

„Ekki verður haldið áfram með keppnistímabilið 2019-20 fyrr en öruggt er og rétt að gera það. Dagsetning á því er í stöðugri endurskoðun í samráði við alla hlutaðeigandi, eftir því sem kórónufarsóttin þróast, og við vinnum saman á þessum erfiðu tímum,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.

Enn fremur er sagt að það sé eindregið markmið að allir leikir sem eftir eru í deildinni og bikarkeppninni muni fara fram, þannig að hægt sé að ljúka tímabilinu af fullri sanngirni. Það verði hins vegar ekki gert nema með fullum stuðningi bresku ríkisstjórnarinnar og ráðgjöf heilbrigðisþjónustunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert