Spáir meiðslahrinu á Englandi

Kevin De Bruyne hefur leikið með Manchester City frá árinu …
Kevin De Bruyne hefur leikið með Manchester City frá árinu 2015. AFP

Kevin De Bruyne, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, segir að félögin á Englandi þurfi annað undirbúningstímabil ef ákveðið verður að hefja leik í ensku úrvalsdeildinni á næstu vikum. Enska úrvalsdeildin er í fríi vegna kórónuveirunnar og óvíst er hvenær leikar muni hefjast á nýjan leik.

„Við erum að stofna næsta tímabili í hættu með því að taka svona langan tíma í að ákveða hvað við eigum að gera með núverandi tímabil,“ sagði De Bruyne í samtali við belgíska miðla. „Sumarfríið á Englandi er ekki langt og það er ekki hægt að fresta bara endalaust og öllu. Vissulega væri það sorglegt að aflýsa tímabilinu núna þegar lítið er eftir.“

„Það er hins vegar kominn tæpur mánuður síðan við spiluðum síðast og það er erfitt að segja hvernig standið á mönnum er. Við erum búnir að vera lengi í pásu og satt best að segja hef ég ekki hugmynd um það hvenær við munum byrja að spila á nýjan leik. Forráðamenn úrvalsdeildarinnar vilja bíða eins lengi og mögulegt er með að taka ákvörðun.“

„Eins og staðan er núna þurfum við í raun þrjár til fjórar vikur til þess að koma okkur aftur af stað. Ef við myndum byrja að spila aftur á morgun þá myndi hver leikmaðurinn á fætur öðrum bætast við á meiðslalistann og það er eitthvað sem enginn knattspyrnuáhugamaður vill sjá gerast,“ bætti Belginn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert