Harry Kane stendur á vegamótum

Harry Kane
Harry Kane AFP

Enski landsliðsfyr­irliðinn Harry Kane viðurkenndi á dögunum að hann gæti hugsað sér að yfirgefa Tottenham til þess að eiga betri möguleika á að vinna stærstu keppnir knattspyrnunnar. Hann hefur lengi verið orðaður við Manchester United og Real Madríd.

Kane, sem hefur skorað 136 úrvalsdeildarmörk í 198 leikjum fyrir Tottenham, stendur því á erfiðum vegamótum á ferlinum en Jamie Redknapp skrifar í pistli sínum á Telegraph að næstu mánuðir verði erfiðir fyrir kappann.

„Þetta eru ekki venjulegir tímar, félög eru að tapa peningum og skera niður, frekar en að undirbúa leikmannakaup í þessum heimsfaraldri,“ skrifaði Redknapp.

„Þetta þýðir að dýrustu og bestu leikmennirnir eru ekki líklegir til að fara á sölu, jafnvel þótt þeir vilji það. Ekki mörg félög munu hafa efni á honum núna. Hann stendur á vegamótum á ferlinum á versta mögulega tíma.“

mbl.is