Arsenal rennir hýru auga til Lingards

Jesse Lingard
Jesse Lingard AFP

Það virðist óumflýjanlegt að knattspyrnumaðurinn Jesse Lingard rói á önnur mið og yfirgefi uppeldisfélag sitt, Manchester United í sumar. Íþróttamiðillinn Athletic segir frá því að líklegasti áfangastaður sóknarmannsins sé Lundúnalið Arsenal.

Lingard hef­ur lítið komið við sögu und­an­farið eft­ir að United festi kaup á Portú­gal­an­um Bruno Fern­and­es og þá hefur Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, ekki hug á að halda honum. Lingard er 27 ára og samkvæmt heimildum The Athletic er Arsenal það úrvalsdeildarfélag sem gæti reynt að klófesta leikmanninn.

Félögin eru ekki óvön því að skiptast á leikmönnum en Alexis Sanchéz og Henrikh Mkhitaryan skiptu um lið í janúar 2018 og þá fóru sóknarmennirnir Danny Welbeck og Robin van Persie á milli liða á sínum tíma.

Wolves, Watford og Sheffield United eru einnig nefnd til sögunnar sem félög sem hafa áhuga á Lingard en hann hefur átt erfitt uppdráttar í vetur og aðeins skorað tvö mörk í 35 leikjum.

Lingard er 27 ára og upp­al­inn hjá Manchester United en hann hef­ur spilað 202 leiki fyr­ir fé­lagið og skorað 31 mark síðan 2014. Áður en hann vann sér inn sæti í aðalliði United spilaði hann í B-deild­inni að láni með fé­lög­um á borð við Leicester, Bir­ming­ham, Bright­on og Der­by.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert