Sir Alex hringdi ekki til baka

Sir Alex Ferguson
Sir Alex Ferguson CHRISTIAN HARTMANN

Alan Shearer, fyrrverandi leikmaður Newcastle og enska landsliðsins sem og markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu, var hársbreidd frá því að ganga til liðs við Manchester United á sínum tíma.

Shearer var enskur meistari með Blackburn 1995 en ári seinna var hann á förum frá félaginu og komu tvö félög til greina; uppeldisfélagið Newcastle eða stórlið Manchester United, en Shearer fundaði með knattspyrnustjórum beggja liða, Kevin Keegan og sir Alex Ferguson.

„Ég settist niður með Kevin Keegan og sir Alex Ferguson á sama degi ... ég hitti Keegan um morguninn og viðræðurnar gengu mjög vel,“ sagði Shearer í spjalli við Gary Lineker en þeir starfa báðir sem sparkspekingar hjá BBC.

„Sir Alex kom síðan og fyrsta spurningin hans var hvort hann væri að hitta mig fyrst. Ég sagði honum að Keegan hefði komið um morguninn og þá vissi hann að þetta væri ekki séns,“ sagði Shearer í skemmtilegri frásögn en sir Alex sagði það af og frá að framherjinn fengi að taka vítaspyrnur á kostnað Erics Cantona, sem þá var aðalmaðurinn í liði United.

Shearer ákvað að lokum að semja við uppeldisfélagið sitt og ætlaði að hringja í Ferguson til að láta hann vita persónulega. „Ég reyndi að hringja í hann á leiðinni á flugvöllinn en hann svaraði ekki. Eftir þriðju tilraun ákvað ég að skilja eftir skilaboð. Það kom svo ekki á óvart að hann hringdi aldrei til baka!“

Alan Shearer átti farsælan feril með Newcastle.
Alan Shearer átti farsælan feril með Newcastle.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert