Spilað fram í október á Ítalíu?

Juventus er með eins stigs forskot á toppi ítölsku A-deildarinnar …
Juventus er með eins stigs forskot á toppi ítölsku A-deildarinnar þegar tólf umferðir eru eftir af deildarkeppninni. AFP

Gabriele Gravina, formaður ítalska knattspyrnusambandsins, segir að það geti vel farið svo að það verði spilað fram í september eða október á Ítalíu til þess að klára tímabilið þar í landi. Ítalía er það land sem hefur farið einna verst út úr kórónuveirufaraldrinum sem nú herjar á heimsbyggðina en alls eru tæplega 16.000 látnir í landinu vegna hennar.

Ítalska A-deildin er í fríi vegna veirunnar, líkt og aðrar deildir í Evrópu, nema í Hvíta-Rússlandi þar sem áfram er spilað. UEFA hvatti á dögunum sérsamböndin til þess að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að klára keppnistímabil sín en í flestum löndum eru tólf til tíu umferðir eftir af deildarkeppni vetrarins.

„Við erum að vinna í því að teikna upp margar sviðsmyndir af því hvernig við ætlum okkur að klára tímabilið,“ sagði Gravina í samtali við Reuters-fréttastofuna. „Mun keppnistímabilið klárast í september eða október? Það gæti vel farið svo en þá þyrftum við að spila eitthvað fram á sumar tímabilið 2020-21,“ bætti formaðurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert