Ekki hluti af Liverpool-fjölskyldunni

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar …
Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool ákvað að nýta sér neyðarúrræði breskra stjórnvalda á laugardaginn síðasta við lítinn fögnuð þeirra sem tengjast félaginu. Hluti af starfsfólki félagsins hefur verið sendur í tímabundið leyfi vegna þess ástands sem skapast hefur vegna kórónuveirufaraldursins sem nú herjar á heimsbyggðina.

Allir starfsmennirnir verða hins vegar áfram á fullum launum en breska ríkið mun greiða 80% af öllum launum starfsmannanna á meðan Liverpool borgar 20% á móti ríkinu. Um er að ræða starfsfólk félagsins en leikmenn, þjálfarar og aðrir sem vinna í kringum knattspyrnuliðið verða áfram á fullum launum sem félagið mun greiða.

„Félagið hefur alla tíð talað um starfsfólkið sitt sem fjölskylduna sína,“ sagði ónefndur starfsmaður félagsins í samtali við BBC. „Mér líður ekki eins og ég sé hluti af Liverpool-fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum. Af hverju er félag sem þénar margar milljónir að fara á spenann hjá ríkinu á svona tímum?

Það er fullt af fyrirtækjum í landinu sem þurfa mikið á þessum peningum að halda og ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið af hverju félag eins og Liverpool ákveður að fara þessa leið. Ég er mjög vonsvikinn með þessa ákvörðun félagsins því það eru aðrir sem þurfa mun meira á þessu úrræði að halda,“ bætti starfsmaðurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert