Leikar gætu hafist í júní

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar leggja allt kapp á að klára deildina.
Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar leggja allt kapp á að klára deildina. AFP

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu vonast til þess að hefja leik í deildinni í júní en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Forráðamenn úrvalsdeildarinnar funda nú með breskum stjórnvöldum og reyna að finna lausn sem myndi henta öllum en ekkert hefur verið spilað í deildinni síðan í byrjun mars vegna kórónuveirufaraldsins sem nú herjar á heimsbyggðina.

Bretar hafa farið illa út úr veirunni en alls eru 47.806 manns smitaðir þar í landi og þar af er tala látinna komin upp í 4.934. Forráðamenn úrvalsdeildarinnar leggja allt kapp á að klára deildina en miklir fjármunir eru í húfi fyrir bæði deildina sjálfa sem og félögin sem gætu mörg hver farið í gjaldþrot ef tímabilið verður ekki klárað.

Flest lið eiga níu leiki eftir af tímabilinu en þó eru lið í deildinni sem eiga eftir að spila tíu leiki. Samkvæmt fréttum á Englandi yrði tímabilið klárað fyrir luktum dyrum sem þýðir að engir áhorfendur myndu fá að mæta á leikina. Öllum leikjum yrði hins vegar sjónvarpað beint og þá hefur einnig verið rætt að allir leikmenn yrðu í stífri einangrun á meðan verið væri að klára tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert