„Ógeðsleg hræsni, sjálfselska og kæruleysi“

Piers Morgan lét Kyle Walker heyra það í morgun.
Piers Morgan lét Kyle Walker heyra það í morgun. AFP

Breski fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan er allt annað en sáttur við knattspyrnumennina Kyle Walker og Jack Grealish þessa dagana. Báðir hafa þeir gerst sekir um að brjóta reglur um samkomubann sem sett var á á Englandi á dögunum vegna kórónuveirunnar sem nú herjar á heimsbyggðina en Bretar hafa farið illa út úr veirunni.

Alls eru 47.806 smitaðir þar af í landi og tala látinna er komin upp í tæplega 5.000. Grealish sem leikur með Aston Villa skemmti sér langt fram á nótt í síðustu viku í veislu þar sem um fimmtíu manns voru mættir. Hann var stoppaður af lögreglu á leið sinni heim og þannig uppgötvaðist að hann hefði brotið reglur um samkomubann.

Walker, sem er enskur landsliðsmaður og leikur með Manchester City, setti inn færslu á Twitter á miðvikudaginn síðasta þar sem hann hvatti fólk til þess að fylgja tilmælum stjórnvalda. Síðar um kvöldið þá fékk hann til sín tvær fylgdarkonur í partí sem hann hélt fyrir sig og vini sína en bæði hann og Grealish hafa stigið fram og beðist afsökunar á gjörðum sínum.

Morgan, sem stýrir morgunþættinum „Good Morning Britain“ á ITV lét leikmennina heyra það í morgun. „Knattspyrnumenn eru að birta alls kyns færslur á samfélagsmiðlum þar sem þeir virka mjög hvetjandi. Verum heima hjá okkur, ekki gera neitt heimskulegt, höldum fjarlægð og verum góðir borgarar,“ sagði Morgan í morgun.

„Walker setur inn svona færslu og svo samdægurs fær hann til sín tvær fylgdarkonur til þess að djamma með sér og vinum sínum. Hversu kærulaus er hægt að vera? Þetta er ógeðsleg hræsni, lygileg sjálfselska og eins mikið kæruleysi og það verður,“ sagði Morgan sem var heitt í hamsi í einum vinsælasta morgunþætti Breta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert