Vill að tímabilið verði dæmt ógilt

Luke Shaw vill aflýsa tímabilinu ef ekki tekst að klára …
Luke Shaw vill aflýsa tímabilinu ef ekki tekst að klára það. AFP

Luke Shaw, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur kallað eftir því að tímabilið í ensku úrvalsdeildinni verði dæmt ógilt ef ekki tekst að klára það vegna kórónuveirunnar. Forráðamenn úrvalsdeildarinnar leggja nú allt kapp á að klára úrvalsdeildina og er stefnt að því að leikar muni hefjast á nýjan leik í júní.

„Aflýsum tímabilinu og byrjum upp á nýtt,“ sagði Shaw í samtali við enska fjölmiðla. „Ef við getum ekki klárað tímabilið ætti að dæma það dautt og ógilt. Það er það eina sem kemur til greina í mínum huga og það er í raun engin önnur leið. Það er ekki hægt að ákveða neitt þegar það á ennþá eftir að spila fjölda leikja.

Stuðningsmennirnir eru gríðarlega stór hluti af leiknum og maður er í raun bara að átta sig á því núna hversu stóra rullu þeir leika. Það er bara eitthvað rangt við það að spila á tómum velli með enga stuðningsmenn en ef það verður gert þá veit maður að það býr eitthvað meira að baki þeirri ákvörðun,“ bætti leikmaðurinn við. 

mbl.is