Vill ekki yfirgefa United

Jesse Lingard hefur ekki spilað vel fyrir United á þessari …
Jesse Lingard hefur ekki spilað vel fyrir United á þessari leiktíð. AFP

Jesse Lingard, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur ekki áhuga á því að yfirgefa félagið en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Lingard hefur lítið sem ekkert spilað með United á tímabilinu og hefur Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri liðsins, því ákveðið að losa sig við hann í sumar.

Lingard er 27 ára gamall en samningur hann við enska félagið rennur út sumarið 2021. United vill því losa sig við Lingard, sem er uppalinn hjá félaginu, í sumar á meðan það fær eitthvað fyrir hann. Lingard hefur hvorki skorað né lagt upp mark í tuttugu deildarleikjum á tímabilinu til þessa.

Hann á að baki 202 leiki fyrir Manchester United í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 31 mark og lagt upp önnur tuttugu fyrir liðsfélaga sína. Lingard lék sinn fyrsta landsleik fyrir England árið 2016 en hann á að baki 24 landsleiki þar sem hann hefur skorað fjögur mörk.

mbl.is