Eitt stærsta nafnið í sögu Manchester United

Ole Gunnar Solskjær
Ole Gunnar Solskjær AFP

Peter Schmeichel, einn besti markvörðurinn í sögu enska knattspyrnuliðsins Manchester United, hvetur forráðamenn félagsins til að halda Ole Gunnar Solskjær sem stjóra liðsins, en þeir voru á sínum tíma liðsfélagar hjá United. 

United lék ellefu leiki í röð án taps áður en nánast öllum fótbolta í Evrópu var frestað og var í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Nöfn á borð við Mauricio Pochettino og Massimiliano Allegri hafa verið orðuð við starfið að undanförnu en Schmeichel vill að gamli liðsfélaginn haldi starfinu.

„Ole hefur verið frábær. Ég vona innilega að allir í stjórninni séu sammála mér. Félagið þarf ekki nýtt stórt nafn til að stýra liðinu því Ole er sjálfur eitt stærsta nafnið í sögu Manchester United. Það var leiðinlegt að tímabilinu skyldi vera frestað því hann var að gera virkilega góða hluti með liðið,“ sagði Schmeichel við Mirror.

mbl.is