Tvær vikur í undirbúning á Englandi?

Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar …
Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar níu umferðir eru eftir af tímabilinu. AFP

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar leggja nú allt kapp á það að deildin verði kláruð í sumar. Öllum leikjum deildarinnar var frestað um miðjan mars vegna kórónuveirunnar en leikur Leicester og Aston Villa 9. mars síðastliðinn í Leicester var síðasti leikur deildarinnar áður en öllu var frestað.

Stefnt er að því að hefja leik í deildinni í júní en forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar ræða nú við stjórnvöld þar í landi til þess að reyna finna lausn sem hentar öllum. Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að það geti vel farið svo að liðin í deildinni muni fá tvær vikur til þess að undirbúa sig fyrir næsta tímabil.

Venjulega fá leikmenn fimm vikna sumarfrí áður en þeir þurfa að mæta aftur til starfa og undirbúningstímabilið er því í kringum tveir heilir mánuðir. Tvær vikur eru ekki langur tími og það er spurning hvernig þessar hugmyndir leggjast í leikmenn liðanna. Það veltur hins vegar mikið á því að tímabilið verði klárað á Englandi.

Félögin fá öll gríðarlega háar sjónvarpstekjur en fari svo að tímabilið verði ekki klárað missa liðin af þessum tekjum. Nokkur félög í ensku úrvalsdeildinni hafa greint frá því að við þeim blasi gjaldþrot ef ekki tekst að klára deildina. Þá hafa þrír stjórar í deildinni tekið á sig 30% launalækkun og reikna má með því að leikmenn deildarinnar muni gera slíkt hið sama á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert