Einn af Evrópumeisturum Liverpool í bílveltu

John Arne Riise í landsleik gegn Íslandi.
John Arne Riise í landsleik gegn Íslandi. mbl.is/Golli

Norski knattspyrnumaðurinn John Arne Riise, sem lék með Liverpool í átta ár og varð Evrópumeistari með liðinu árið 2005, lenti í bílslysi ásamt dóttur sinni í nótt.

Norskir fjölmiðlar skýrðu frá því að Riise og Ariana dóttir hans, 19 ára gömul, hefðu verið flutt á sjúkrahús eftir bílveltu skammt frá Álasundi. Þau hefðu bæði verið með meðvitund og sloppið nokkuð vel og samkvæmt nýjustu fréttum fengu þau að fara heim í morgunsárið eftir aðhlynningu.

Tekið er fram að ekki sé grunur um ölvun og að Riise hafi þurft að sveigja bifreiðinni óvænt frá hindrun á veginum og ekið á vegrið með þeim afleiðingum að bifreiðin valt.

Riise, sem er 39 ára gamall, lék samtals í ellefu ár á Englandi, þrjú þau síðustu með Fulham, en var leikmaður Roma á Ítalíu í þrjú ár eftir að hann kvaddi Liverpool árið 2008. Riise lék 546 deildaleiki á ferlinum, 234 þeirra með Liverpool, og spilaði 110 landsleiki fyrir Noreg.

mbl.is