Klopp misreiknaði Mané við fyrstu sýn

Jürgen Klopp fagnar með Sadio Mané.
Jürgen Klopp fagnar með Sadio Mané. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, viðurkennir að hann hafi ekki metið Sadio Mané rétt þegar hann sá hann fyrst en þá var Klopp við stjórnvölinn hjá Borussia Dortmund og Mané var leikmaður Salzburg í Austurríki.

Klopp kemur fram í heimildarmynd sem gefin hefur verið út um Mané og heitir Made in Senegal og sagði frá atviki frá árinu 2014 þegar hann átti þess kost að kaupa sóknarmanninn til Dortmund.

„Ég man þegar ég hitti Sadio fyrst. Það var í Dortmund. Þarna sat ungur strákur með skakka hafnaboltahúfu á hausnum og með hvíta strikið í hárinu sem hann er með enn í dag. Hann leit út eins og rappari og ég hugsaði með mér: Ég hef ekki tíma fyrir þennan.

Við vorum ekki með svo slæmt lið á þessum tíma. Mig vantaði einhvern sem gæti höndlað það að vera ekki strax í byrjunarliðinu, einhvern sem ég gæti skólað til. Ég myndi segja að ég hefði almennt góða tilfinningu fyrir fólki en þarna hafði ég algjörlega rangt fyrir mér. Ég fylgdist áfram með ferli hans, hvernig hann hélt áfram að gera það gott með Salzburg og hjá Southampton var hann yfirburðamaður,“ segir Klopp í myndinni.

Klopp keypti Mané til Liverpool frá Southampton árið 2016, tveimur árum eftir þennan fund þeirra í Dortmund, og hann hefur verið lykilmaður í liðinu frá þeim tíma. Senegalinn er búinn að skora 77 mörk í 161 mótsleik fyrir Liverpool, vinna Evrópumeistaratitilinn og er langt kominn með að vinna enska meistaratitilinn 2020 með félaginu.

mbl.is