Leikmenn ensku deildarinnar snúa bökum saman

Jordan Henderson ætlar að leggja sitt að mörkum.
Jordan Henderson ætlar að leggja sitt að mörkum. AFP

Nokkrar stjörnur úr ensku úrvalsdeildinni í fótbolta hafa snúið bökum saman og stofnað sjóð til að hjálpa heilbrigðisyfirvöldum í baráttunni við kórónuveiruna. Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, og Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, eru á meðal leikmanna sem taka þátt í söfnuninni.

„Undanfarnar vikur höfum við, leikmenn í ensku úrvalsdeildinni, rætt okkar á milli um leiðir til að koma peningum til þeirra sem þurfa á þeim að halda. Þetta er erfiður tími og við erum staðráðnir í að hjálpa til eins og við getum,“ segir í yfirlýsingu sem bæði Kane og Henderson birtu á samfélagsmiðlum.

„Við getum staðfest að þónokkrir leikmenn úr öllum liðum ensku úrvalsdeildarinnar leggja sitt af mörkum. Við viljum gera okkar til að hjálpa til,“ segir einnig í yfirlýsingunni.

mbl.is