Sýnir því skilning ef Liverpool verður ekki meistari

Sadio Mané í leik með Liverpool.
Sadio Mané í leik með Liverpool. AFP

Sóknarmaðurinn Sadio Mané skilur það vel ef Liverpool verður ekki krýnt Englandsmeistari í knattspyrnu vegna kórónuveirunnar. Lærisveinar Jürgens Klopp eru með 25 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og tveimur sigrum frá því að tryggja sér titilinn. 

Liverpool, sem hefur ekki orðið enskur meistari í 30 ár, fær ekki tækifæri til að gulltryggja sér titilinn á næstunni, þar sem búið er að fresta öllum leikjum ensku úrvalsdeildarinnar ótímabundið. Æ fleiri virðast þeirrar skoðunar að aflýsa eigi tímabilinu og segist Mané sýna því skilning

„Ég vil vinna leiki og vinna titilinn, en ég sýni því skilning ef tímabilinu verður aflýst. Þetta hefur verið erfitt hjá Liverpool en ekki eins erfitt og hjá milljónum manna um allan heim.

Margir eru veikir og margir hafa misst ástvini. Það er draumur að verða meistari núna, en ef ekki, þá horfum við á næsta tímabil,“ sagði Mané. 

mbl.is