Varnarmaður United æfir með sænsku liði

Victor Lindelöf, til vinstri, í leik með Manchester United.
Victor Lindelöf, til vinstri, í leik með Manchester United. AFP

Victor Lindelöf, miðvörður enska knattspyrnuliðsins Manchester United, æfir þessa dagana með sænska B-deildarliðinu Västerås.

Lindelöf er fæddur og uppalinn í Västerås og lék með liði staðarins til 17 ára aldurs þegar hann var seldur til Benfica í Portúgal. Þaðan lá svo leiðin til Manchester United fyrir þremur árum.

Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hélt Lindelöf heim til Svíþjóðar og æfir nú með liðinu. „Þetta var að hans frumkvæði, hann hafði samband og þar sem hann er ávallt miklu meira en velkominn var sjálfsagt að hann fengi að æfa með okkur. Það er frábært að hafa hann hér, hitta hann og vera með hann á æfingum. Það er afar hvetjandi fyrir alla okkar leikmenn að hann sé með og það er gott að geta boðið hann velkominn aftur á æfingar í Västerås,“ sagði Robin Blommé íþróttastjóri félagsins við staðarblaðið VTL.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert