Arsenal er við öllu búið

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal. AFP

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, undirbúr sig nú fyrir allar mögulegar atburðarásir vegna óvissunnar sem ríkir um félagsskiptagluggann í sumar.

FIFA skoðar nú að færa gluggann til og hefur hvatt félög til að framlengja samninga við leikmenn þangað til að tímabilinu lýkur, hvenær sem það verður. Arsenal er með tvo leikmenn að láni, Dani Ceballos og Cedric Soares, og þá verður fyrirliðinn Pierre-Emerick Aubameyang samningslaus á næsta ári.

„Ég er að undirbúa tvær eða þrjár mismunandi atburðarásir, við erum að bregðast við nýjum upplýsingum á hverjum degi,“ sagði Arteta í viðtali við Sky Sports. „Við vitum ekki hver fjárhagsstaðan verður, hverjar reglurnar verða, hvenær glugginn verður opinn. Það er svo margt sem við stjórnum ekki sem stendur.“

Arteta greindist sjálfur með kórónuveiruna sem nú herjar á heimsbyggðina en hann segist vera orðinn fullfrískur eftir viku af veikindum.

mbl.is