Goðsögn Liverpool greind með veiruna

Kenny Dalglish.
Kenny Dalglish. AFP

Sir Kenny Dalglish, fyrrverandi leikmaður og knattspyrnustjóri Liverpool á Englandi, hefur verið greindur með kórónuveiruna. Var hann lagður inn á sjúkrahús síðastliðinn miðvikudag. Fram að því hafði hann verið í sjálfskipaðri sóttkví, en Skotinn er 69 ára gamall. 

Dalglish lék á sínum tíma meira en 500 leiki með Liverpool og skoraði í þeim 169 mörk. Þá stýrði hann liðinu fyrst frá 1985 til 1991 og síðar frá 2011 til 2012. 

Varð Dalglish sex sinnum enskur meistari sem leikmaður Liverpool, þrisvar Evrópumeistari og einu sinni enskur bikarmeistari. Þá gerði hann liðið þrívegis að enskum meistara sem þjálfari og tvívegis að bikarmeistara. Þá gerði hann Blackburn að enskum meistara árið 1995. 

„Sir Kenny var lagður inn á spítala 8. apríl síðastliðin vegna sýkinga. Í kjölfarið fór hann í veirupróf og var greindur með kórónuveiruna. Hann hvetur alla til að hlusta á yfirvöld og fara eftir þeirra fyrirmælum. 

Hann vill nýta tækifærið og þakka heilbrigðisþjónustunni fyrir magnað starf. Hann hlakkar til að komast heim og við munum koma með frekari fregnir af líðan hans fljótlega,“ segir m.a. í yfirlýsingu frá Dalglish-fjölskyldunni, sem birtist á heimasíðu Liverpool. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert