Erfitt fyrir United að fá heimsklassaleikmenn

Ole Gunnar Solskjær hefur stýrt liði Manchester United frá því …
Ole Gunnar Solskjær hefur stýrt liði Manchester United frá því í desember 2018. AFP

John Barnes, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool og sparkspekingur hjá ESPN, segir að Manchester United þurfi fjóra heimsklassaleikmenn í sumar ætli liðið sér að berjast um titla á næstu leiktíð. Ole Gunnar Solskjær hefur nú stýrt liðinu síðan í desember 2018 en óvíst er hvort hann fái nægt fjármagn til þess að kaupa leikmenn í sumar vegna kórónuveirufaraldursins.

„Hjá United snýst þetta fyrst og fremst um að fá inn þrjá til fjóra mjög sterka leikmenn,“ sagði Barnes í samtali við enska fjölmiðla. „Fyrir tíu árum fékk Liverpool til sín fullt af leikmönnum en enginn þeirra styrkti liðið þannig lagað. Þegar United fer á leikmannamarkaðinn í sumar þurfa þeir leikmenn sem virkilega styrkja hópinn og það gæti reynst erfitt.

Eins og staðan er í dag þurfa þeir sterka leikmenn en það er samt erfitt að sjá heimsklassa leikmenn fara til Manchester United einfaldlega því ég held að þeir vilji ekki fara þangað. United er á þeim stað í dag að það er ekkert sérstaklega spennandi að fara þangað og það eru mun betri lið í úrvalsdeildinni sem virka meira heillandi,“ bætti Barnes við.

mbl.is

Bloggað um fréttina