Fyrsta skrefið samþykkt af ensku liðunum

Enska úrvalsdeildin freistar þess að komast aftur í gang um …
Enska úrvalsdeildin freistar þess að komast aftur í gang um miðjan júní. AFP

Félögin í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu samþykktu á fundi sínum í dag að stíga fyrsta skrefið í átt til þess að hefja keppni á ný frá og með morgundeginum.

Félögin funduðu í dag um framhaldið á deildinni sem hefur verið í lausu lofti undanfarnar vikur en stefnt hefur verið að því að hefja keppni seinnipart júnímánaðar.

Eftir samþykktina í dag liggur fyrir að frá og með morgundeginum geta liðin byrjað að æfa í litlum hópum en til þessa hefur aðeins verið leyfilegt að æfa með ströngum fjarlægðartakmörkunum. Þau verða þó enn til staðar og snertingar leikmanna ekki leyfðar.

Gríðarlegar öryggisaðgerðir verða á æfingasvæðum félaganna varðandi sótthreinsun og aðrar heilbrigðisráðstafanir.

Í yfirlýsingu frá úrvalsdeildinni segir að fram undan séu viðræður við leikmenn, knattspyrnustjóra, félög og samtök leikmanna og knattspyrnustjóra um hvernig staðið verði að næsta stigi þegar æfingar án takmarkana verða leyfðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert