Stefnum alltaf að því að spila með þeim bestu

Páll Viðar Gíslason.
Páll Viðar Gíslason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Páll Viðar Gíslason, þjálfari karlaliðs Þórs í fótbolta, ræddi við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun í dag. Páll tók við Þór eftir síðasta sumar, en hann stýrði liðinu áður frá 2006 til 2014. Þórsarar enduðu í sjötta sæti 1. deildarinnar í fyrra undir stjórn Englendingsins Greggs Ryders. Páll vill gera betur og stefnir á sæti í efstu deild á næsta ári. 

„Þór stefnir alltaf að því að spila með þeim bestu og ef við erum ekki þar stefnum við á að fara þangað. Það vantaði herslumuninn í fyrra og kjarninn í hópnum er áfram. Vissulega eru samt sem áður ný andlit komin inn en að sama skapi leikmenn farnir líka. Þetta er ágætlega þéttur hópur og við erum klárir fyrir sumarið,“ sagði Páll Viðar. 

Spánverjinn Álvaro Montejo skoraði tíu deildarmörk síðasta sumar og var markahæsti leikmaður liðins. Páll er vissulega ánægður að halda sínum helsta markaskorara. 

„Eftir síðasta tímabil voru margir hlutir óljósir, m.a. með hann. Það er jákvætt ef einhverjir hafa áhuga á leikmönnum Þórs en það ákváðu það flestir að taka slaginn með okkur áfram. Montejo þekkir allt hérna og var alveg til í að koma aftur. Hann ásamt nokkrum öðrum eru að mínu mati í efstudeildarklassa.“

Páll er ánægður með leikmannahóp Þórs eins og hann er og á ekki von á frekari styrkingu. „Ég á ekki von á því að við styrkjum okkur frekar. Við vorum komnir með það sem við vildum frekar snemma á undirbúningstímabilinu. Það kæmi mér mjög á óvart ef við bætum eitthvað við okkur. Við erum með stóran og jafnan hóp með harðri samkeppni. Ég hef trú á að þessi hópur fari með okkur þangað sem við viljum fara.“

Á hann von á hörðum slag í deildinni í ár og fleiri liðum sem gera tilkall til efstu sætanna. 

„ÍBV, Keflavík, Grindavík, Fram. Ég er örugglega að gleyma einhverjum líka. Það verða eflaust fleiri sem blanda sér í þetta en hefur verið undanfarin ár. Ég stefni á og vona að mitt lið verði eitt þeirra sem berjast um þetta þegar upp er staðið,“ sagði Páll Viðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert