Áfrýjun Manchester City sett á dagskrá

Manchester City bíður niðurstöðunnar hjá Alþjóða íþróttadómstólnum.
Manchester City bíður niðurstöðunnar hjá Alþjóða íþróttadómstólnum. AFP

Alþjóða íþróttadómstóllinn, CAS, tilkynnti í dag að áfrýjun Manchester City vegna refsingar UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, yrði tekin fyrir dagana 8. til 10. júní.

UEFA úrskurðaði City í tveggja ára bann frá Evrópumótunum í knattspyrnu og sektaði félagið um jafnvirði 4,6 milljarða íslenskra króna fyrir að brjóta reglur sambandsins um fjárhagslega háttvísi.

City tilkynnti strax að úrskurðinum yrði áfrýjað til CAS, sem nú hefur sett málið á dagskrá á heimasíðu sinni. Ef CAS dæmir ekki City í hag mun félagið ekki leika í Meistaradeild Evrópu eða Evrópudeildinni keppnistímabilin 2020-21 og 2021-22.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert