Fyrirliðinn neitar að mæta til æfinga

Troy Deeney fyrirliði Watford, ætlar sér ekki að snúa aftur …
Troy Deeney fyrirliði Watford, ætlar sér ekki að snúa aftur til æfinga á tilsettum tíma. AFP

Troy Deeney, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Watford, ætlar sér ekki að mæta aftur til æfinga en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar voru boðaðir aftur til æfinga í vikunni en forráðamenn deildarinnar stefna á að hefja leik í deildinni um miðjan júní.

Deeney hefur áhyggjur af fimm mánaða gömlum syni sínum sem hefur átt við öndunarvandamál að stríða. „Við eigum að mæta aftur til æfinga í vikunni en ég hef tjáð forráðamönnum félagsins að ég muni ekki snúa aftur á tilsettum tíma,“ sagði Deeney í samtali við hlaðvarpsþáttinn Talk The Talk.

„Ég á fimm mánaða gamlan son og hann hefur átt við öndunarerfiðleika að stríða. Ég vil ekki storka örlögunum með því að mæta aftur til æfinga og koma svo heim og stofna lífi hans í hættu. Ef ég smitast á æfingasvæðinu eru mestar líkur á því að ég komi heim með smit og ég er ekki tilbúinn að taka þá áhættu,“ bætti fyrirliðinn við.

mbl.is