Þýskaland hefur sýnt að þetta sé hægt

Jürgen Klopp er ánægður með að leikmenn séu byrjaðir að …
Jürgen Klopp er ánægður með að leikmenn séu byrjaðir að æfa á æfingasvæðum félaga sinna. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er ánægður með að leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar megi æfa á nýjan leik á æfingasvæði félaganna í þessari viku. Æfðu leikmenn í litlum hópum í dag, en rúmir tveir mánuðir eru síðan síðast var leikið í ensku deildakeppninni.

Er stefnt að því að hefja leik að nýju í deildinni í næsta mánuði. Var upprunalega vonast til að fyrstu leikirnir yrðu leiknir 12. júní, en samkvæmt Sky er líklegra að deildin fari aðeins síðar af stað.

Sex kór­ónu­veiru­smit voru greind hjá fé­lög­um í deildinni í dag, en félög eru byrjuð að skima leikmenn og annað starfsfólk. Alls voru tek­in 748 sýni og munu þeir sýktu fara í ein­angr­un í það minnsta sjö daga.

„Ef við prófum fyrir veirunni eins oft og hægt er og við fylgjum settum reglum ættu leikmennirnir að vera öruggir. Það sýndi sig í Þýskalandi. Þá smituðust nokkrir leikmenn, en þeir eru allir byrjaðir að spila í dag. Vonandi gengur þetta jafn vel á Englandi,“ sagði Klopp í viðtali á heimasíðu Liverpool.

„Þetta snýst um að finna rétta tímapunktinn og ég held að þetta sé góður tímapunktur til að byrja að æfa,“ sagði Þjóðverjinn Klopp. Hann var ánægður með það sem hann sá í þýska boltanum um helgina, en fyrsta umferð hans eftir veiruna var leikin um helgina.

„Leikirnir voru mjög góðir. Glæsileg mörk, mikið barist og jafnir leikir. Vonandi náum við að leika þetta eftir. Þýskaland hefur sýnt að þetta sé hægt,“ sagði Klopp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert