Klopp spenntur fyrir „fyrsta skóladeginum“

Jürgen Klopp mætti spenntur í vinnuna í dag.
Jürgen Klopp mætti spenntur í vinnuna í dag. AFP

Leikmenn enska knattspyrnuliðsins Liverpool byrjuðu að æfa í dag í fyrsta skipti síðan útgöngubann var sett á Bretlandseyjum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp var afar spenntur að fá að vinna með leikmönnunum sínum á æfingasvæðinu á nýjan leik.

„Ég vaknaði fyrr en vanalega og áttaði mig svo á að þetta væri fyrsti dagurinn. Þetta er eins og fyrsti skóladagurinn. Sá dagur kom fyrir 46 árum hjá mér, en þetta er svipuð tilfinning. Ég klæddi mig í búninginn aftur og fór á æfingu,“ sagði Klopp á heimasíðu Liverpool. 

Mega leikmenn nú æfa í litlum hópum og verða að fylgja ströngum öryggisreglum. Fimm mega æfa saman og má hver leikmaður lengst æfa í 75 mínútur í senn. Liverpool er með 25 stiga forskot á toppi deildarinnar þegar níu umferðir eru eftir og er Klopp vongóður um að tímabilið fari aftur af stað í næsta mánuði. 

„Við erum ekki alveg vissir um hversu langan tíma við höfum, en við höfum einhvern tíma til að undirbúa okkur fyrir það sem eftir lifir tímabilsins og næsta tímabils því það verður örugglega ekki langt frí á milli tímabila. Þetta er undirbúningstímabil án æfingaleikjanna,“ sagði Klopp, sem er ánægður með starfsöryggi leikmanna sinna. 

„Við erum að æfa á mjög öruggum stað og það er hugsað fyrir öllu. Vonandi fáum við góðar fréttir bráðum og getum klárað tímabilið,“ sagði Jürgen Klopp.

mbl.is