Missti leikgleðina undir stjórn Mourinho

Alexis Sánchez og José Mourinho unnu saman hjá Manchester United …
Alexis Sánchez og José Mourinho unnu saman hjá Manchester United árið 2018. AFP

Knattspyrnumaðurinn Alexis Sánchez náði sér aldrei á strik undir stjórn José Mourinho þegar þeir unnu saman hjá Manchester United. Mourinho tók við stjórnartaumunum hjá United sumarið 2016 en hann entist aðeins í rúm tvö ár í starfi. Í janúar 2018 fékk hann Sánchez til félagsins í skiptum fyrir Henrikh Mkhitaryan.

Sánchez tókst aldrei að sanna sig á Old Trafford og var að lokum lánaður til Inter Mílanó, sumarið 2019, eftir að Ole Gunnar Solskjær hafði tekið við stjórnartaumunum á Old Trafford. „Ég hef mína skoðun á hlutunum og þegar að ég tala um samband mitt við Mourinhi þá er ég að lýsa minni upplifun,“ sagði Sánchez í samtali við  enska götublaðið Mirror.

„Mourinho er einn af bestu knattspyrnustjórum heims þegar kemur að því að þjálfa, leikgreina og haga sér á æfingasvæðinu. Það vissi hins vegar enginn leikmaður í hópnum hvar hann virkilega stæði innan liðsins. Stundum varstu í liðinu og stundum ekki og það var þess vegna lítið sem ekkert sjálfstraust í leikmannahópnum.

Undir restina var andrúmsloftið innan hópsins hrikalegt. Stundum var ég að spila vel, ég skoraði og var svo tekinn út af. Þetta voru erfiðir tímar og ég þurfti stanslaust að sannfæra sjálfan mig um það að ég elskaði fótbolta,“ bætti Sílemaðurinn við en Sánchez er 31 árs gamall í dag og hefur verið orðaður við brottför frá félaginu í sumar.

mbl.is