Sigraðist á krabbameini og samdi við United

Max Taylor á sjúkrahúsinu.
Max Taylor á sjúkrahúsinu. Ljósmynd/Maxtalor00

Enski knattspyrnumaðurinn Max Taylor hefur framlengt samning sinn við Manchester United um eitt ár, rúmu ári eftir að hafa sigrast á krabbameini. 

Taylor, sem er tvítugur varnarmaður, hefur verið hjá Manchester United frá 14 ára aldri. Var hann greindur með krabbamein í nóvember árið 2018 og eftir níu vikna lyfjameðferð sigraðist hann á sjúkdómnum. 

Leikmaðurinn byrjaði að æfa á ný eftir veikindin í september á síðasta ári og lék hann sex sinnum fyrir varalið félagsins. Þá var hann á bekknum er United mætti Astana á útivelli í Evrópudeildinni í nóvember. 

„Þetta var ótrúlegt. Ég og mamma horfðum á hvort annað og hugsuðum það sama. Heyrðum við rétt? Er þetta krabbamein? Mamma brotnaði niður strax og fór að gráta. Ég var í sjokki en ég grét ekki. Ég gekk af spítalanum og trúði varla því sem hafði gerst. 

Max Taylor í leik með Manchester United.
Max Taylor í leik með Manchester United. AFP

Þegar þú heyrir orðið krabbamein fer allt af stað í höfðinu. Hvað mun gerast? Hvað næst? Mun ég spila fótbolta aftur? Mun ég lifa af? Ég endurtók þessar spurningar í höfðinu á mér aftur og aftur,“ sagði Taylor við BBC. Lyfjameðferðin reyndist honum erfið. 

„Þetta var mjög erfitt og fyrsta nóttin var sú erfiðasta. Þú vaknar allur sveittur og þú titrar, á sama tíma er þér ískalt. Þú verður fárveikur og ég vissi að þetta yrðu erfiðar níu vikur,“ sagði Taylor enn fremur. 

mbl.is