Skilur ekki þá sem neita að mæta til æfinga

Jamie Carragher starfar sem sparkspekingur hjá Sky Sports í dag.
Jamie Carragher starfar sem sparkspekingur hjá Sky Sports í dag. AFP

Jamie Carragher, fyrrverandi varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool og núverandi sparkspekingur hjá Sky Sports, skilur ekki viðhorf þeirra leikmanna sem hafa neitað að mæta á æfingar hjá liðum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Félög á Englandi mega byrja að æfa á nýjan leik eftir kórónuveirufaraldurinn en þó bara fimm saman í hóp.

Forráðamenn deildarinnar stefna á að deildin, sem hefur verið í hléi frá því 9. mars, snúi aftur í kringum 12. júní en leikmenn á Englandi eru ekki hrifnir af því að snúa aftur til leiks og eru hræddir um eigin heilsu. „Þetta snýst alfarið um að fá leikmenn í ensku úrvalsdeildinni til þess að trúa því öryggi þeirra sé tryggt,“ sagði Carragher í samtali við Sky Sports.

„Fyrirliði Watford hefur viðrað sýnar áhyggjur sem snúa að syni hans en svo talar hann líka um þetta sem samfélagslegt vandamál sem það vissulega er. Þú ferð til rakarans og þar er eitthvert fólk sem þú hefur ekki hugmynd um hvar hefur verið eða hverja það hefur hitt. Á æfingasvæðinu ertu að æfa með mönnum sem eru ekki sýktir og hafa verið prófaðir.

Það er mun öruggara að fara á æfingasvæðið en að vera úti á götu eða í matvöruverslun sem dæmi. Það þarf eitthvað mikið að gerast ef leikmenn smitast á æfingasvæðinu þar sem þeir eru prófaðir reglulega. Þá er eitthvað að vinnuferlinu sem unnið er eftir. Leikmenn sem greinast jákvæðir í úrvaldeildinni smitast utan æfingasvæðisins.

Mér myndi líða mjög vel að fara á æfingasvæðið vitandi það að þeir leikmenn sem hafa greinst með veiruna séu heima hjá sér í einangrun. Ég skil að menn hafi áhyggjur og treysti ekki öllu í kringum sig en að forðast eigið æfingasvæði af ótta við smit er alveg fráleitt og erfitt að skilja þannig viðhorf,“ bætti Carragher við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert