United endurgreiðir stuðningsmönnum sínum

Manchester United var á góðri siglingu þegar tímabilinu var frestað.
Manchester United var á góðri siglingu þegar tímabilinu var frestað. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur ákveðið að endurgreiða bæði ársmiðahöfum hjá félaginu sem og þeim sem eiga miða á þá leiki sem eftir eru af tímabilinu en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Óvíst er hvenær enska úrvalsdeildin fer aftur af stað en ekkert hefur verið leikið í deildinni vegna kórónuveirufaraldursins síðan 9. mars.

„Kæri stuðningsmaður. Þrátt fyrir að yfirvöld og forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafi ekki tekið ákvörðun um hvenær og hvernig enska úrvalsdeildin mun fara af stað er það orðið ljóst að allir þeir leikir, sem eftir eru, muni fara fram fyrir luktum dyrum,“ segir í tilkynningu frá félaginu til stuðningsmanna liðsins.

„Eins vonsviknir og við erum með þessa niðurstöðu þá er þetta það eina rétta í stöðunni. Við vildum svo sannarlega hafa ykkur í stúkunni til þess að hvetja liðið áfram en því miður þarf fólk að gera það heima í stofu núna. Til þess að koma til móts við alla höfum við ákveðið að endurgreiða öllum sem eiga miða á þá leiki sem eftir eru,“ segir í tilkynningu félagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert