Upplifði sig mjög öruggan

Harry Maguire
Harry Maguire AFP

Leikmenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United sneru aftur á æfingasvæðið í dag í fyrsta skipti eftir að út­göngu­bann var sett á Bret­lands­eyj­um. Tveir mánuðir eru síðan spilað var í ensku deildinni og var varnarmaðurinn Harry Maguire ánægður með að vera mættur aftur til starfa. 

„Þetta hafa verið skrítnir tímar en allir hjá félaginu fylgja reglum. Ég upplifði mig mjög öruggan á æfingunni í dag og ég er viss um að það verða engin vandamál. Það eru mun færri á svæðinu en venjulega. Ég æfði með fjórum leikmönnum og einum þjálfara í dag, svo við vorum ekki margir saman. 

Við æfum á stórum svæðum og við breiðum vel úr okkur. Þetta var erfið æfing og það verður gott að koma heim að slaka aðeins á,“ sagði Maguire í viðtali á heimasíðu United. 

Vonir standa til að hægt verði að leika í deildinni á ný í næsta mánuði. Vilja félögin byrja 13. júní en samkvæmt Sky Sports er líklegra er að keppni í deildinni fari af stað viku seinna, 20. júní. 

mbl.is