Við erum ekki tilraunarottur

Danny Rose gekk til liðs við Newcastle á láni í …
Danny Rose gekk til liðs við Newcastle á láni í janúarglugganum. AFP

Danny Rose, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Tottenham og lánsmaður hjá Newcastle í ensku úrvalsdeildinni, er einn þeirra leikmanna sem hafa lítinn áhuga á því að snúa aftur á knattspyrnuvöllinn. Enska úrvalsdeildin hefur verið í dvala síðan 9. mars vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur herjað á heimsbyggðina undanfarnar vikur.

Rose var á móti því að snúa aftur til æfinga í vikunni og þá vill hann ekki byrja að spila aftur fyrr en það er öruggt. „Ég get ekki beðið eftir því að byrja spila aftur en við megum ekki gleyma því að það eru stærri hlutir í gangi núna sem skipta meira máli,“ sagði leikmaðurinn í samtali við Sky Sports.

„Margir eiga um sárt að binda og ég vil ekki hljóma eins og einhver sem kvartar og kveinar yfir öllu. Það er til fólk sem einhvern veginn ætlast til þess að við byrjum að spila aftur eins og einhverjar tilraunarottur. Það á að sjá hvort þetta gengur upp eða ekki með því að láta okkur spila nokkra leiki.

Ég sé alveg fólkið heima í stofu kalla eftir því að við snúum aftur og það sé okkar skylda þar sem við fáum vel greitt fyrir okkar starf. Persónulega er ég ekki tilbúinn að stofna lífi mínu og heilsu í hættu svo fólk geti horft á fótbolta daginn út og inn, það er ekki þess virði,“ bætti bakvörðurinn við.

mbl.is