Vildu ekki gefa boltann á Mané

Sadio Mané gekk til liðs við Liverpool frá Southampton sumarið …
Sadio Mané gekk til liðs við Liverpool frá Southampton sumarið 2016. AFP

Sadio Mané, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er á meðal bestu knattspyrnumanna heims í dag. Mané, sem er 28 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool frá Southampton sumarið 2016 fyrir 34 milljónir pund en hann lék með Southampton frá 2014 til 2016 og vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína þar.

Kenýamaðurinn Victior Wanyama, lék með Mané í tvö ár hjá Southampton, en hann gekk til liðs við Tottenham 2016 þegar Mauricio Pochettino, fyrrverandi þjálfari hans hjá Southampton, fékk hann til London. „Ég og Mané náðum strax mjög vel saman hjá Southampton og við mynduðum með okkur sterkt vinasamband,“ sagði Wanyama í samtali við Goal.com.

„Á einhverjum tímapunkti kom Mané til mín á æfingu og tjáði mér að að liðsfélagar okkar vildu ekki gefa á hann þar sem þeir vildu ekki að hann myndi skora. Ég samþykkti að gefa boltann meira á hann í leikjum og þegar boltinn barst til mín reyndi ég allt hvað ég gat að koma honum á Mané og það borgaði sig oft og tíðum ágætlega,“ bætti miðjumaðurinn við en hann er samningsbundinn Montreal Impact í bandarísku MLS-deildinni í dag.

mbl.is