Vill banna félagsskipti í janúar

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arsene Wenger, fyrrverandi knattspyrnustjóri Arsenal og núverandi starfsmaður FIFA, vill hætta með janúarfélagsskiptagluggann. Segir hann leikmenn oft og tíðum gefast upp snemma á tímabilum, vitandi að þeir geti skipt um félag í janúar. 

Ræddi Wenger við Mirror um þær breytingar sem hann vildi sjá vegna þeirra erfiðleika sem heimsfótboltinn hefur gengið í gegnum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 

„Ég væri til í að hætta með janúargluggann. Knattspyrnustjórar eru ekki hrifnir af glugganum. Þegar leikmenn komast ekki í liðin í október gefast þeir upp því þeir vita að þeir geta farið í janúar,“ sagði Wenger við enska miðilinn. 

Þá vill Wenger sömuleiðis setja strangari reglur um greiðslur til umboðsmanna. „Ég hef ekkert á móti því að umboðsmenn fái greitt fyrir að vinna vinnuna sína, en það ætti að vera ólöglegt að fá greitt frá bæði félaginu sem kaupir leikmann og félaginu sem selur hann,“ sagði Frakkinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert