Ensku liðin endurgreiða aðgangseyri

West Ham og Brighton eru tvö þeirra félaga sem ætla …
West Ham og Brighton eru tvö þeirra félaga sem ætla að endurgreiða aðgangseyri. AFP

Sjö félög í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafa nú tilkynnt stuðningsfólki sínu að það fái endurgreidda þá miða sem það hafi keypt á síðustu heimaleikina á yfirstandandi keppnistímabili.

Liðin eiga ýmist fjóra eða fimm heimaleiki eftir en þeir verða leiknir án áhorfenda og ekki er enn ákveðið hvort spilað verði á hlutlausum völlum eða á heimavöllum liðanna. Vonast er til að hægt verði að halda keppni áfram um miðjan júní en ekkert hefur verið spilað í deildinni frá 9. mars vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

West Ham tilkynnti um ákvörðun sína í dag og varð sjöunda félagið til þess en áður höfðu Manchester United, Manchester City, Tottenham, Everton, Brighton og Norwich ákveðið að fara þessa leið.

Ársmiðahafar fá endurgreitt jafnvirði þess sem umræddir leikir hefðu kostað, en þeir geta líka látið upphæðina ganga upp í ársmiða næsta keppnistímabils. Á sama hátt er með staka miða sem hafa verið keyptir á umrædda síðustu heimaleiki tímabilsins. Hjá West Ham mun það sama gilda um leiki félagsins í úrvalsdeild kvenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert