Ensku liðin færu upp og niður þótt tímabilinu lyki ekki

West Bromwich Albion fer upp í úrvalsdeildina ef ekki verður …
West Bromwich Albion fer upp í úrvalsdeildina ef ekki verður hægt að ljúka keppni í B-deildinni. AFP

Forráðamenn ensku deildakeppninnar í knattspyrnu, English Football League, staðfestu í dag að lið muni færast á milli deilda á hefðbundinn hátt, hvort sem hægt verði að ljúka yfirstandandi keppnistímabili eða ekki.

EFL heldur utan um B-, C- og D-deildirnar í karlaflokki og tekur ákvarðanir varðandi mál þeirra í heild sinni en hver deild um sig hefur síðan ákvörðunarrétt um hvort spilað verði til enda eða ekki. Félögin í B-deildinni vilja flestöll ljúka tímabilinu, í C-deildinni skiptast félögin í tvær jafnar fylkingar um hvað skuli gera en í D-deildinni er samstaða um að hætta keppni.

EFL gaf út í dag að fari svo að keppni í einhverri deildanna verði ekki lokið muni núverandi staða gilda sem lokastaða — en á þann hátt að hlutfall stiga ráði úrslitum í þeim tilvikum sem lið hafa ekki leikið jafnmarga leiki. Umspil verði síðan að fara fram, þótt keppni sé ekki lokið að öðru leyti.

Þetta þýðir að ef ekki tekst að ljúka keppni í B-deildinni fara Leeds og WBA upp í úrvalsdeildina en Fulham, Brentford, Nottingham Forest og Preston færu þá í umspil um eitt  sæti. Charlton, Luton og Barnsley myndu falla niður í C-deildina.

Verði ekki haldið áfram í C-deildinni fara Coventry og Rotherham upp í B-deildina en Wycombe Wanderers, Oxford, Portsmouth og Fleetwood færu í umspil um eitt sæti. Tranmere, Southend og Bolton myndu falla ásamt Bury sem varð gjaldþrota áður en tímabilið hófst.

Ef ákvörðun D-deildarliðanna stendur eru það Crewe, Swindon og Plymouth sem fara beint upp í C-deildina en Exeter, Cheltenham, Colchester og Northampton færu í umspil um eitt sæti. Stevenage myndi falla úr deildakeppninni og Barrow kæmi í staðinn sem efsta lið Þjóðardeildarinnar, National League. Þar færi einnig hið gamalgróna félag Notts County í umspil um að vinna sig aftur upp í D-deildina þar sem eitt sæti er á lausu vegna brotthvarfs Bury.

mbl.is