Gylfi sér fram á gífurleg viðbrigði

Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu við þrjá leikmenn Crystal Palace …
Gylfi Þór Sigurðsson í baráttu við þrjá leikmenn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í vetur. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu segir að það verði einkennilegt að byrja að spila á ný án áhorfenda en hann og liðsfélagar hans í Everton hófu æfingar á ný í vikunni eftir tveggja mánaða hlé vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Gylfi kvaðst í viðtali við Sky Sports sem birtist í morgun hafa fylgst vel með þegar þýski fótboltinn fór af stað á ný um síðustu helgi, án áhorfenda og með ströngum reglum um sóttvarnir og öryggi. Englendingar vonast til að geta haldið áfram keppni í úrvalsdeildinni um miðjan júní en þar er níu umferðum ólokið.

„Þetta verða gífurleg viðbrigði, held ég. Áhorfendurnir skapa stemninguna og kveikja í ástríðunum. Leikmennirnir nærast á því þannig að auðvitað veltir maður því fyrir sér hvernig það verði til dæmis að fagna marki. Það verður allt öðruvísi að vinna leik á tómum velli, en það verður gaman fyrir stuðningsfólkið að sjá fótboltann aftur í sjónvarpinu. Vonandi er þetta bara fyrsta skrefið af mörgum í rétta átt, og vonandi geta áhorfendur snúið aftur á völlinn fyrr en síðar,“ sagði Gylfi.

Everton tapaði 4:0 fyrir Chelsea og seig niður í tólfta sætið í síðasta leik sínum fyrir hléið og Gylfi sagði að tímasetningin á því hefði ekki verið sú besta.

„Nýi stjórinn var búinn að vera með okkur í nokkurn tíma og við vorum farnir að læra að spila eins og hann vill, og vorum spenntir fyrir síðustu níu umferðum deildarinnar. Vonandi getum við náð okkur aftur á strik á æfingunum og náð góðum endaspretti,“ sagði Gylfi.

Eftir að Carlo Ancelotti tók við liðinu hefur Everton spilað 4-4-2 og þar með hefur staða Gylfa sem fremsta miðjumanns verið nánast lögð niður. Síðasta vetur lék hann þá stöðu og skoraði 14 mörk en í vetur hefur hann leikið aftar á miðjunni og aðeins skorað eitt mark.

„Ég hef vissulega áður spilað á tveggja manna miðju með íslenska landsliðinu, og það er öðruvísi, en það er ekki sú staða sem ég hef vanalega spilað. En ég hef spilað flestalla leikina eftir að nýi stjórinn kom og vanist þessu. Ég fæ ekki sömu tækifæri og áður til að fara framar á völlinn, en þetta er öðruvísi og ég kann vel við stöðuna,“ sagði Gylfi en viðtalið í heild sinni má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert