Hafa þegar tapað fimm milljörðum króna

Old Trafford, heimavöllur Manchester United, hefur skartað skammstöfun bresku heilbrigðisþjónustunnar …
Old Trafford, heimavöllur Manchester United, hefur skartað skammstöfun bresku heilbrigðisþjónustunnar undanfarnar vikur. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United hefur þegar tapað 28 milljónum punda, um fimm milljörðum íslenskra króna, vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og reiknar með að það sé bara brot af heildartapinu sem félagið muni verða fyrir af völdum hennar.

United birti í dag niðurstöður af fyrsta fjórðungi ársins og þær ná aðeins til 31. mars en þá hafði keppni á Englandi legið niðri í þrjár vikur.

Cliff Baty, fjármálastjóri Manchester United, skýrði frá því að félagið þurfi að skila til baka 20 milljónum punda vegna fyrirhugaðra sjónvarpstekna, jafnvel þótt takist að ljúka keppnistímabilinu. Þá hafi United misst af tekjum upp á átta milljónir punda vegna frestana leikja þrjár síðustu vikurnar í marsmánuði. 

Baty sagði að félagið hefði jafnframt orðið af tekjum vegna leikja í Evrópudeildinni og bikarkeppninni, og þá væri verslun félagsins á Old Trafford enn þá lokuð og því hefðu engar tekjur komið þaðan.

Manchester United hefur ekki viljað gefa upp heildartölur varðandi fyrirsjáanlegt tekjutap vegna kórónuveirunnar en framkvæmdastjórinn Ed Woodward sagði samkvæmt BBC að megnið af tapinu myndi falla á annan ársfjórðung, þ.e. tímabilið frá aprílbyrjun til júníloka.

„En félagið er byggt á traustum grunni. Við erum áfram mjög bjartsýnir á framtíðarmöguleika félagsins, eftir að við höfum unnið okkur út úr sérstakasta og erfiðasta kaflanum í 142 ára sögu Manchester United,“ sagði Ed Woodward.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert