Allir í úrvalsdeildinni skimaðir í dag

Ensku liðin æfa á bak við luktar dyr þessa dagana …
Ensku liðin æfa á bak við luktar dyr þessa dagana en sumir ná að kíkja á hetjurnar sínar. AFP

Allir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu gangast í dag undir skimun fyrir kórónuveirunni í annað sinn.

Þeir fóru í fyrstu skimunina fyrir nokkrum dögum ásamt starfsfólki liðanna tuttugu og þar kom í ljós að sex væru smitaðir. Einn leikmaður, Adrian Mariappa hjá Watford, hefur staðfest að hann sé með veiruna, sem og Ian Woan, þjálfari hjá Burnley. Tveir úr starfsliði Watford eru í þessum hópi en ekki hefur verið gefið upp hvaðan tveir smitaðir koma og hvort um leikmenn eða starfsmenn er að ræða.

Þessir sex eru í einangrun og fara ekki aftur í skimunina í dag en niðurstöður hennar verða birtar um helgina.

Hvert félag getur tekið allt að 100 próf á hverri viku en þetta er liður í að koma keppni í úrvalsdeildinni aftur af stað. Stefnt er að því að hefja keppni á ný um miðjan júní en það er ekki staðfest enn þá, enda þurfa heilbrigðisyfirvöld á Bretlandseyjum að gefa endanlegt leyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert