Chelsea án Kanté í sumar?

N'Golo Kante er lykilmaður hjá Chelsea.
N'Golo Kante er lykilmaður hjá Chelsea. AFP

Útlit er fyrir að Chelsea verði án franska miðjumannsins N'Golo Kanté þegar keppni hefst á ný í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu um miðjan næsta mánuð.

Kanté mætti á æfingu hjá Chelsea á þriðjudaginn eftir að hafa mælst neikvæður í skimun fyrir kórónuveirunni. Hann hefur hins vegar verið hikandi við að hefja æfingar á ný þar sem hann óttast afleiðingar þess fyrir heilsu sína en bæði eldri bróðir hans og faðir dóu ungir að árum.

Chelsea hefur nú staðfest að félagið hafi heimilað honum að vera áfram í einangrun af þeim sökum um ótiltekinn tíma. Kanté er í stóru hlutverki hjá Chelsea, enda talinn í hópi bestu varnartengiliða heims.

mbl.is