Fimmti bítillinn var magnaður markaskorari (myndskeið)

George Best.
George Best. Reuters

Norðurírski knattspyrnusnillingurinn George Best hefði orðið 74 ára í dag hefði hann lifað.

Best lést í nóvember 2005 og var aðeins 59 ára gamall. Heilsan var ekki eins og best verður á kosið og hafði Best gengist undir lifrarígræðslu árið 2002. 

Best átti marga aðdáendur hér á landi eins og annars staðar og kom til að mynda til Íslands sumarið 1982 og tók þátt í sýningarleikjum. 

Frægðarsól Best var lengi á lofti enda fékk hann viðurnefnið fimmti bítillinn vegna þeirrar miklu fjölmiðlaathygli sem hann fékk. 

Í knattspyrnunni var hann á hátindinum árið 1968 þegar Manchester United varð fyrst enskra liða til að vinna Evrópukeppni meistaraliða með sigri á Benfica í úrslitaleiknum. Þar skoraði Best eitt markanna og var hann valinn Knattspyrnumaður ársins í Evrópu árið 1968. 

Á fæðingardegi kappans hafa ýmis mörk og tilþrif verið dregin fram á samskiptamiðlum bæði af Manchester United og ýmsum fjölmiðlum. Á myndskeiðinu hér fyrir neðan má sjá fjölda glæsilegra tilþrifa George Best:mbl.is