Enn þá bálreiður Manchester United

Cesc Fábregas í leik gegn Manchester United.
Cesc Fábregas í leik gegn Manchester United. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Cesc Fábregas viðurkennir að hann sé enn bálreiður Manchester United eftir að United hafði betur gegn Arsenal á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta árið 2004.

Höfðu Fábregas og liðsfélagar hans í Arsenal leikið 49 leiki í röð án þess að tapa þegar liðið mætti United í leiknum fræga. Mörk frá Wayne Rooney og Ruud van Nistelrooy tryggðu að lokum 2:0-sigur United. 

Með góðum úrslitum hefði Arsenal verið fyrsta liðið í sögu deildarinnar til að leika 50 leiki í röð án þess að tapa. Fábregas er fyrst og fremst ósáttur við hvernig leikurinn tapaðist.

„Við vorum svo vonsviknir og reiðir. Það getur gerst að tapa á Old Trafford á móti mjög góðu Manchester United-liði en við vorum mjög ósáttir við hvernig það gerðist,“ sagði Fábregas við Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmann Manchester United, á youtubesíðu þess enska. 

„Í fyrsta lagi, það sem Gary Neville gerði við Antonio Reyes, guð minn almáttugur. Svo var Wayne Rooney endalaust að dýfa sér að reyna að ná í vítaspyrnur. Þetta gerir mig enn þá bálreiðan. Við áttum ekki að tapa þessum leik og við töpuðum honum á slæman hátt,“ sagði Fábregas ennfremur. 

mbl.is