Kanté mætir ekki á æfingasvæðið

N'Golo Kanté.
N'Golo Kanté. AFP

Frakkinn N’Golo Kanté gæti misst af því sem eftir er leiktíðar í ensku úrvalsdeildinni, fari hún af stað á ný, vegna ótta hans við kórónuveiruna.

Frakkinn hefur fengið leyfi til þess að æfa heima og hefur til þess fullan stuðning Franks Lampards, knattspyrnustjóra Chelsea, sem og stjórnar Chelsea.

Kanté var á æfingasvæði Chelsea á þriðjudag en hefur ekki mætt á Cobham-svæðið aftur eftir að hafa lýst yfir áhyggjum sínum að því er fram kemur í frétt Sky Sports.

Kanté missti eldri bróður sinn úr hjartaáfalli aðeins nokkrum vikum fyrir HM í Rússlandi árið 2018. Það leið yfir hann sjálfan nokkrum mánuðum seinna á æfingu en ekkert alvarlegt kom í ljós í læknisskoðun.

Kanté bætist þar með í röð fleiri leikmanna sem hafa lýst yfir áhyggjum sínum með það að snúa aftur til æfinga. Þegar hafa Troy Deeney, leikmaður Watford, og Danny Rose, leikmaður Newcastle, gert slíkt hið sama, og vísað til gagna hagstofu Bretlands sem benda til þess að hörundsdökkt fólk sé jafnvel tvöfalt líklegra til þess að deyja af völdum COVID-19 en hvítt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert