Ómögulegt að byrja ensku úrvalsdeildina 12. júní

Christian Kabasele í leik með Watford gegn Liverpool.
Christian Kabasele í leik með Watford gegn Liverpool. AFP

Christian Kabasele, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Watford, segir það ómögulegt að enska úrvalsdeildin í knattspyrnu eigi að fara af stað á ný þann 12. júní eins og staðið hefur til.  

Var síðast leikið í deildinni í mars og vilja ensk knattspyrnuyfirvöld ólm hefja leik í næsta mánuði. Hefur 12. júní verið nefndur til sögunnar en Kabasele segir það of snemmt og ógna öryggi leikmanna. 

„Það er verið að tala um 12. júní en ég held að það sé ómögulegt, því við myndum bara ná að æfa á fullu í þrjár vikur og þar liggur áhætta,“ sagði Kabasele við Counter Attack-hlaðvarpið. 

„Mér finnst lok júní henta mun betur og þá færðu allavega fjórar vikur til að æfa. Við sjáum hvað gerist. Við vitum ekki mikið eins og er,“ sagði Belginn. 

mbl.is