Liðsfélagi Gylfa var að niðurlotum kominn

Michael Keane.
Michael Keane. AFP

Knattspyrnumaðurinn Michael Keane var í einlægu viðtali við Sky Sports um helgina þar sem hann segir frá erfiðum árum vegna mikilla meiðsla og slæmrar frammistöðu hjá félaginu sem keypti hann fyrir metfé.

Tímabilið hefur verið vonbrigði hjá Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton en liðið er í 12. sæti eftir 29 umferðir. Keane er 27 ára varnarmaður sem gekk til liðs við félagið frá Burnley árið 2017, sama sumar og Gylfi, en hann er dýrasti varnarmaðurinn í sögu Everton, kostaði um 30 milljónir punda.

Varnarmaðurinn hefur verið mikið meiddur og meiddist m.a. í einum af sínum fyrstu leikjum með liðinu. Engu að síður hélt hann áfram að spila og átti það eftir að reynast dýrkeypt. „Ég vildi bara vera með liðsfélögunum, liðið var að eiga erfiðan kafla,“ sagði Keane sem endaði á sjúkrahúsi. „Ég vildi ekki að fólk myndi halda að ég væri að gefast upp þannig að ég hélt bara áfram að spila. Eftir á að hyggja var það slæm hugmynd.“

Keane átti afar erfitt uppdráttar fyrsta árið í Liverpool og að lokum brotnaði Englendingurinn niður fyrir framan fjölskyldu sína og leitaði sér aðstoðar sálfræðings í kjölfarið. „Ég vildi ekki fara út úr húsi, ég vildi ekki hitta neinn. Ég skammaðist mín fyrir gengi liðsins og vildi ekki láta sjá mig.“

„Að lokum náði ég mínu lægsta stigi og grét fyrir framan fjölskylduna mína. Eftir það ákvað ég að leita hjálpar frá mínum nánustu og svo fór ég líka að hitta íþróttasálfræðing.“

„Það var erfitt að stíga fyrsta skrefið, maður er svo stoltur. Það er fullkomlega eðlilegt að leita sér hjálpar og ég vil hvetja alla sem þurfa á því að halda að gera það. Ég þekki það af eigin reynslu að þetta hjálpar.“

mbl.is