Manchester United hefur lækkað kaupverðið

Chris Smalling fagnar marki með Roma.
Chris Smalling fagnar marki með Roma. AFP

Líkurnar á að ítalska knattspyrnufélagið Roma kaupi enska miðvörðinn Chris Smalling af Manchester United virðast hafa aukist verulega en samkvæmt Il Tempo á Ítalíu hefur United lækkað kaupverðið á leikmanninum.

Smalling hefur leikið sem lánsmaður með ítalska liðinu í vetur og verið í stóru hlutverki. United hefur hins vegar viljað fá 25 milljónir punda fyrir hann, þrátt fyrir að ljóst sé að hann eigi ekki framtíð fyrir höndum á Old Trafford eftir að Harry Maguire var keyptur þangað og tók stöðu hans.

Il Tempo segir að nú sé United tilbúið til að láta Smalling fara fyrir 16 til 18 milljónir punda og það gerir Roma líklega kleift að fá hann endanlega í sínar raðir.

Smalling, sem er þrítugur, hefur spilað 21 af 26 leikjum Roma í A-deildinni á tímabilinu og skorað í þeim tvö mörk.

mbl.is